fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Fóstureyðing veldur fósturláti

Á vefsíðu ljosmodir.is er hægt að lesa frásögn konu sem fór í fóstureyðingu fyrir fimm árum og eftir það hefur hún misst fóstur tvisvar sinnum.

Takk fyrir góðan vef!
Þannig er að ég er þrítug og á tvær stúlkur, 4 og 8 ára. Ég og maðurinn minn höfum verið að reyna að eignast barn undanfarna 8 mánuði en það hefur ekki gengið sem skildi. Fjórum mánuðum eftir að ég hætti á pillunni varð ég ófrísk en missti við 7 vikur. Eftir þann missi fór ég á móttökudeildina og þar var mér tjáð að ekkert væri hægt að gera og sónarinn sýndi að fóstrið var farið. Ég beið samviskusamlega með nýja tilraun þar til eftir 1 blæðingar en varð reyndar ekki aftur ófrísk fyrr en 3 mánuðum seinna, en s.s. nú er ég aftur búin að missa við 6 vikur. Ég er svo vonsvikin af því að læknirinn á móttökudeildinni sagði að það væru ekki miklar líkur á að ég myndi missa næst en ég er núna að spá hvort að líkurnar séu orðnar meiri þar sem ég hef misst 2x. Ég fór ekki í þetta sinn á móttökudeildina þar sem allt virðist hafa skilað sér og ég veit að ekkert er hægt að gera. Getur verið að ég sé að missa út af óreglulegum tíðarhring, hann er frá 35-45 daga. Aukast líkur á að þetta gangi upp hjá okkur ef við bíðum með að reyna aftur. Ætti ég að leita til kvensjúkdómalæknis, getur verið að e-ð sé að? Vinkona mín sagði mér reyndar að læknarnir vildu ekkert rannsaka fyrr en kona væri búin að missa 3x. Einnig fór ég í fóstureyðingu fyrir 5 árum þ.e.a.s. ég treysti mér ekki til að eignast barn vegna aðstæðna en sá svo mikið eftir því að ég ákvað að verða ófrísk aftur. Getur fóstureyðingin valdið því að ég er að missa fóstur núna?
Með þökk, Ein vonsvikin.

Það er staðreynd að fóstureyðing getur valdið ófrjósemi og fósturlátum eins og lesa má um á heimasíðu Lífsverndar:


Sköddun á leghálsi vegna áður framkvæmdra fóstureyðinga, auka líkurnar á fósturláti, fæðingu fyrir tímann og öðrum erfiðleikum við fæðingu við seinni þunganir um 300 til 500 prósent.[12,15,19,33] Þessar hættur við meðgöngu, sem fóstureyðing skapar, eru sérstaklega miklar fyrir konur sem láta eyða fóstri á sinni fyrstu meðgöngu. Umfangsmikil rannsókn á fóstureyðingum á fyrstu meðgöngu, komst að því að 48% kvenna upplifði erfiðleika tengda fóstureyðingu í síðari meðgöngum. Konur í þessum hópi urðu fyrir 2.3 fósturlátum fyrir hverja lifandi fæðingu.[19] En önnur rannsókn leiddi í ljós að meðal táninga sem eyddi fóstri í sinni fyrstu þungun, þá upplifðu 66% þeirra fósturlát eða fæðingu fyrir tímann í sinni annari og “æskilegu” meðgöngu vegna duldrar útbreiðslu fylgikvilla fóstureyðinga.

Sjá greinina á heimasíðu Lífsverndar hérna. Frásögnin ásamt svari ljosmodur.is er hérna.


 

mánudagur, nóvember 22, 2004

Nokkur dæmi um orð andstæðinga minna

Þeir fóstureyðingarsinnar sem ég hef rætt við á spjallþráðum spara sumir ekki lýsingarnar á mér og minni persónu þegar ég hef rætt um mitt viðhorf til fóstureyðingar. Hér eru nokkur dæmi.

Þessar öfgatrúarskoðanir þínar varðandi þetta málefni gerir það að verkum að mig hreinlega hryllir við þeim. Ég á mjög erfitt með að trúa að manneskja geti verið jafn óhuggulega kaldlynd, hrokafull og talíbönsk í hugsun og þú.

Þannig að þér er sama þótt það muni rústa andlegu lífi margra kvenna? Það að eyða fóstri sem er neytt upp í þig eru sjálfsögð mannréttindi. Þessi skoðun þín er í raun ekkert annað en viðbjóðsleg.

Þið sértrúalið ættuð að skammast ykkar fyrir það að voga ykkur að taka ákvarðanir fyrir aðra og dæma suma fyrir það eitt að gera hluti sem réttastir eru hverju sinni.

Veistu það jeremia að þið, sértrúalið, eruð allir upp til hópa heilaþvegnir meira eða minna. Það er grátlegt að lesa skrift eftir ykkur haldandi þessu og hinu fram en hafið sjálf ekki staðið frammi fyrir svona ákvörðunum eins og fostureyðingum og ekki er skoðun ykkar á hommum og lesbium skárri.

Ég held að það séu ekki miklar líkur á því að fólk snúi aftur á miðaldir eða taki upp þessa úrkynjuðu, andstyggilegu og kreddufullu kaþólsku lifnaðarhætti - GUÐI SÉ LOF! Vonandi fæðistu aftur sem illa upplýst, lauslát kona í landi þar sem kaþólsk vitleysa er lög! Þar sem þú líklega telur þig geta sett þig í spor fósturfrumu reyndu þá að setja þig í spor konu/unglingsstelpu!!! En þú getur líklega leyft þér að hafa þessa afdráttalausu miðaldaskoðun, ekki er nein hætta á að þú verðir í þessum sporum þröngsýni karlskarfur. Who died and made you god!

Hér eru nokkur dæmi um kaldlyndi viðmælenda minna:

Daginn sem þú gerist grænmetisæta skal ég hugsanlega hlusta á þetta raus, en ef þú berð meiri virðingu fyrir rétti meðvitundarlauss fósturvísis en lifandi dýrs til lífs þá er ekki mark á þér takandi. Þú predikar bara um siðferðisbreytni sem raskar ekki þínu eigin lífsmunstri.

Harry lét fjarlægja vörtu um daginn og sér eftir því. Harry sér fram á að eiga við sálrænan vanda að stríða vegna þessa :LOL
[Sagt í umræðu um fóstureyðingar]

En jeremia, svaraðu spurningu minni: Er það að nota smokkinn morð?

Talandi um þörf fyrir að láta vorkenna sér, væl og froða sem vellur úr henni í dag.
[Sagt í tilefni frásagnar konu sem lifði af tilraun til fóstureyðingar, þar sem tvíburabróður hennar var eytt.]

Þetta er frumuklumpur. Engin mannsmynd, enginn heili, ekkert vit.

Það er meiri glæpur að svæfa kött hinsta svefni en eyða frumukekki úr konukvið.

Ég er ákaflega fylgjandi fóstureyðingum og finnst þær hið besta mál.

Ég sé ekkert að líknardrápum á nýfæddum dauðadæmdum sárkvölnum sjúkum(takk guð) börnum. Hvað er að því?


 

Lífsverndarsinnar eru ekki kvenhatarar

Mótbárur fóstureyðingarsinna eru nokkrar. Á næstu dögum ætla ég að taka eina fyrir í einu og svara henni.

1. Þeir segja oft: "Lífsverndarsinnar / andstæðingar fóstureyðinga, eru andfeminískir kvenhatarar, oftast miðaldra karlmenn sem skilja ekki þarfir kvenna, og vilja festa þær í hörmulegum lífsskilyrðum".

Reyndin er að við viljum bæði móðurinni allt hið besta. En við leggjum áherslu á að lífi barnsins sé þyrmt þótt að það kunni að hafa neikvæðar afleiðingar fyrir móðurina. Enda erum við fullviss um að eftir að móðirin hefur séð barnið sitt þá yfirgnæfi móðurástin allt og allar hindranir séu yfirstíganlegar. Af hverju er ekki hægt að aðstoða móðurina og jafnframt þyrma lífi barnsins? Hins vegar eru þeir sem hvetja til fóstureyðingar að hvetja til verknaðar sem oft veldur ævilöngum sálarkvölum og hjartasorg fyrir móðurina og oft einnig líkamlegum skaða, svo sem auknum líkum á fósturláti síðar á ævinni, ófrjósemi o. fl. Það eru vissulega hörmuleg lífsskilyrði sem lífsverndarsinnar eru að reyna að forða viðkomandi móður frá því að upplifa.