þriðjudagur, apríl 19, 2005

Ratzinger kjörinn páfi

Á mánudag hefst kjör nýs páfa í Sixtusarkapellunni í Vatíkaninu í Róm. Kardinálasamkundan nú erður sú fjölmennasta og sú alþjóðlegasta í sögunni. Alls munu 115 kardinálar frá 52 þjóðlöndum koma saman og velja arftaka Jóhannesar Páls II páfa, sem borinn var til grafar á dögunum. Arftaki Jóhannesar Páls II verður 262. eftirmaður Péturs postula. Enginn veit hversu marga daga kjörið mun taka en þær reglur og hefðir sem gilda í páfakjörinu eru skýrt afmarkaðar og eiga ekki aðeins við um stór atriði, eins og framkvæmd kosningarinnar sjálfrar, heldur einnig um smáatriði eins og diskinn sem notaður er til þess að flytja samanbrotna kjörseðla kardinálanna í sérstakt ker.
Ýmsir segja fyrirkomulagið við kjör páfa gamaldags og vilja láta breyta því, meðal annars með því að gera ferlið við kjörið opnara. Aðrir benda hins vegar á að kjörfundir kardinálanna séu virðulegar samkomur og vilja að haldið verði í hefðirnar. Nútímatækni kemur þó við sögu í páfakjörinu. Sérstökum búnaði hefur verið komið upp til þess að koma í veg fyrir að hægt verði að nota leysitækni til þess að nema samræður kardinálanna út frá titringi í rúðum, meðan á páfakjörinu stendur.Þá mun öðru kerfi, hafa verið komið fyrir í Santa Maria hótelinu, svo ekki reynist unnt að hlera það sem þar fer fram, en kerfið kemur að auki í veg fyrir notkun farsíma í byggingunni.
Fyrirkomulag páfakjörsins er þannig að fyrst safnast kardínálarnir saman í Péturskirkjunni í Vatíkaninu og hlýða þar á sérstaka messu, Pro Eligendo Papa, eða "Fyrir páfakjör." Verður þetta í síðasta sinn sem þeir sjást opinberlega áður en páfakjörið hefst. Seinna um daginn halda kardínálarnir inn í Sixtusarkapelluna. Þegar þangað er komið er öllum dyrum og gluggum lokað með blýinnsigli. Áður fyrr voru þeir látnir búa við þröngan kost til þess að ýta undir, að þeir kæmust sem fyrst að samkomulagi, en nú er öldin önnur og betur að þeim hlynnt.
Hafa þeir aðgang að gististað eða hóteli í Páfagarði, Santa Maria-byggingunni, og er starfsfólkið þar látið sverja sérstakan þagnareið. Varða brot við því bannfæringu kirkjunnar. Tekur þessi eiður raunar einnig til kardinálanna og þá líka viðurlögin.
Sjálft kjörið gengur þannig fyrir sig að á hverjum degi fara fram fjórar atkvæðagreiðslur, tvær að morgni og tvær síðdegis. Á fyrsta degi kjörfundarins fer þó líklega aðeins ein atkvæðagreiðsla fram. Að lokinni hverri umferð kosninganna eru atkvæðaseðlarnir brenndir í ofni í Sixtusarkapellunni. Hafi ekki náðst samkomulag um nýjan páfa er reykurinn úr skorsteininum eðlilegur ef svo má segja, svartur á lit, en hafi nýr páfi verið kjörinn, þá er sérstöku efni blandað saman við seðlana til að gera reykinn hvítan. Þá hefur Vatíkanið ákveðið að bjöllum verði jafnframt hringt þegar nýr páfi hefur verið kjörinn. Verður þetta gert vegna atviks sem varð áður en Jóhannes Páll II páfi náði kjöri árið 1978. Þá brutust út fagnaðarlæti á Péturstorginu eitt kvöldið, þar sem um 100.000 manns höfðu safnast saman, þegar hvítur reykur virtist liðast upp úr skorsteini kapellunnar. Skömmu síðar barst hins vegar tilkynning frá útvarpi Vatíkansins um að reykurinn væri svartur og nýr páfi hefði enn ekki verið kjörinn.
Til þess að ná kjöri þarf páfaefni að fá tvo þriðju hluta greiddra atkvæða, en breytingar sem Jóhannes Páll páfi lét gera, fela í sér að dragist kjör páfa í á aðra viku dugar einfaldur meirihluti greiddra atkvæða til kjörs. Samkvæmt lögum kirkjunnar eiga kardinálarnir að koma saman tveimur vikum eftir lát páfa og ekki síðar en 20 dögum. Kenningin segir, að heilagur andi muni hafa hönd í bagga með þeim við valið en í raun er kosningabaráttan afar hörð. Mest eftir að kardinálarnir koma til Rómar en oft er hún hafin löngu fyrr. Þegar einhver kardinálanna hefur verið valinn sem nýr páfi er hann fyrst spurður hvort hann sé því samþykkur og síðan hvaða páfanafn hann velji sér. Að öllu þessu frágengnu mun yfirmaður kardinálasamkundunnar, Joseph Ratzinger, ganga út á svalir basilíku heilags Péturs og tilkynna hárri röddu: "Habemus papam", "Við höfum fengið nýjan páfa". Síðan fer páfi út á svalir og flytur sína postullegu blessun.


http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/pafi_2005/pafakjor.html

Þýski kardínálinn Joseph Ratzinger hefur verið kjörinn nýr páfi rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Tilkynnt var af svölum Péturskirkjunnar, að Ratzinger hefði tekið sér nafnið Benedikt XVI. Ratzinger, sem er 78 ára gamall, er 265. páfinn í sögunni.
Ratzinger kom út á svalir Péturskirkju eftir kardínáli hafði komið út á svalirnar og tilkynnt að páfi hefði verið kjörinn. Páfi flutti stutt ávarp og sagði: „Kæru bræður og systur, eftir hinn mikla páfa Jóhannes Pál II hafa kardínálarnir valið mig, einfaldan og auðmjúkan verkamann í víngarði drottins." Ratzinger blessaði hann mannfjöldann á Péturstorgi í fyrsta skipti. Talið er að um 100 þúsund manns séu nú á Péturstorginu til að fylgjast með atburðum. Gífurleg fagnaðarlæti brutust út þegar ljós reykur kom upp úr reykháfi á þaki Sixtusarkapellunnar en það gaf til kynna að nýr páfi hefði verið kjörinn. Fagnaðarlætin mögnuðust þegar klukkum Péturskirkjunnar var hringt til staðfestingar á páfakjörinu.
Ratzinger hefur verið yfirmaður kardínálaráðsins lengi en hann var skipaður kardínáli árið 1977. Hann þykir afar íhaldssamur og í stólræðu, sem hann flutti í gær við upphaf kardínálasamkomunnar, varði hann kenningar kirkjunnar og gagnrýndi það sem hann kallaði „alræði afstæðishyggjunnar", eða þeirrar afstöðu að ekki séu til nein algild sannindi.


http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1134463

Ég lýsi persónulega yfir mikilli ánægju með þetta kjör. Ég vonaði að Ratzinger yrði kosinn, en hver sem það hefði verið myndi vafalaust verða mjög góður páfi. Guð blessi Benedikt XVI páfa!!

 

Skiljið eftir viðbrögð

Gerið svo vel að smella á “Post a Comment” hér neðst á síðunni.

Hægt er að skrifa feitletraðað eða hallandi letur, og setja inn tengingar á aðrar síður.
Feitletrað á milli: <b> og </b>
Hallandi letur á milli: <i> og </i>
Tengingar: <a href="slóð">skýring</a>
Önnur html merki virka ekki. Notið enter til að gera greinaskil.
Ekki er hægt að gera greinaskil strax á eftir > heldur verður að setja punkt fyrst.

0 Viðbrögð:

Skrifa ummæliAðalsíða