fimmtudagur, desember 23, 2004

Mótbárum svarað

Stuðningsmenn fóstureyðinga hafa ýmsar mótbárur fram að færa þegar þeir hitta fyrir andstæðinga fóstureyðinga. Hér eru allar þær mótbárur sem ég hef heyrt og lesið, og þeim svarað í örstuttu máli. Þessar mótbárur snúst í meginatriðum um móðurina og hennar aðstæður, barnið og svo gagnrýni á lífsverndarfólk, eða andstæðinga fóstureyðinga.

Móðirin:

1. “Konan hefur óskoraðan umráðarétt yfir eigin líkama.”
Það gæti værið rétt ef það væri aðeins hennar eigin líkami sem verið væri að tala um. Það er hins vegar ekki, heldur er um lítið barn að ræða, sem er að vaxa inni í líkama móðurinnar, en er ekki hluti af líkama móðurinnar. Barnið hefur sitt eigið hjarta sem slær, sitt eigið blóð í æðum og sína eigin erfðavísa sem eru ekki þeir sömu og móðurinnar.

2. “Ef fóstureyðingar væru bannaðar, myndu ólöglegum fóstureyðingum fjölga, og konur myndu vera í meiri hættu.”
Lög sem eru sett til verndar lífi barna geta ekki verið gölluð þótt fólk muni hugsanlega setja sig í hættu við að brjóta þau lög.

3. “Fóstureyðing er einkamál konunar, milli hennar og Guðs - Við getum ekki þröngvað okkar siðferðisgildum upp á aðra.”
Það er ekki einkamál fólks að taka líf annara. Það er mál alls samfélagsins. Samfélaginu ber að vernda líf allra sinna þegna og litla barnið er manneskja eins og við hin.

4. “Ekki ætti að þvinga konur til að fæða óvelkomin börn, sem setja framtíðaráætlanir þeirra í uppnám, eða sem þær geta ekki framfleytt.”
Það er hægt að setja barn í fóstur hjá ættingja, eða gefa það til ættleiðingar. Einnig minnum við á Kærleiksheimili Priscillu í því sambandi (s: 564-3117)

5. “Ef kona verður þunguð eftir nauðgun, á hún að eiga rétt á að láta eyða fóstrinu.”
Hvaða sök á barnið? Ef það er yfir höfuð rangt að deyða börn (og það er rangt), hlýtur það sama að gilda fyrir þetta barn.

6. “Ef líf eða heilsu móður stafar hætta af áframhaldandi meðgöngu og fæðingu, má eyða fóstrinu.”
Það er sjálfsagt fyrir móður að gera það sem nauðsynlegt er til að vernda heilsu sína og líf, en það verður að gera með því að lækna meinið en ekki ráðast gegn barninu. Bein fóstureyðing er aldrei nauðsynleg til að vernda heilsu móðurinnar.

Barnið:

7. “Ef barn mun ekki geta lifað eftir fæðingu má láta eyða því.”

Við getum ekki kveðið upp dauðadóm yfir neinum vegna veikinda þeirra. Það verður að líta á þetta barn sömu augum og annað fólk sem glímir við sjúkdóma.

8. “Fóstrið er ekki barn á fyrstu vikum meðgöngu, heldur frumuklumpur.”
Það er ekki rétt. Strax eftir 6 vikur, sem er um það bil sá tími þegar móðir uppgötvar að hún er orðin þunguð, er fóstrið með hjartslátt, blóð rennur í æðum og heilastarfsemi er mælanleg. Það er með útlimi, fingur og tær. Það er mannvera eins og þú! Einu sinni varst þú á þeim aldri.

Lífverndarsinnar - andstæðingar fóstureyðinga:

9. “Andstæðingar fóstureyðinga eru ósamkvæmir sjálfum sér því þeir eru oft fylgjandi dauðarefsingum og stríði.”
Dauðarefsingar ætti að afnema nema að það sé eini kosturinn til að vernda almenning frá hættulegum glæpamönnum, sem það er ekki, því við höfum fangelsi. Stríð er aðeins réttlætanlegt til að verja land sitt og þegna fyrir innrásarmönnum. Lífsverndarsinnar geta haft mismunandi skoðanir á einstökum málum, en það þýðir ekki að málstaðurinn, að vera á móti fóstureyðingum, sé rangur.

10. “Andstæðingar fóstureyðinga eru á móti auknum réttindum kvenna og fylgjandi kvennakúgun.”
Það er ekki rétt. Andstæðingar fóstureyðinga eru aðeins á móti fóstureyðingum en hafa engar sérstakar skoðanir á réttindum kvenna. Lífsverndarsinnar hafa sjálfsagt mismunandi skoðanir á kvenréttindabaráttu en það þýðir ekki að málstaðurinn, að vera á móti fóstureyðingum, sé rangur. Það á ekki að vera réttur neins að taka líf annara.

11. “Andstæðingar fóstureyðinga hafa myrt starfsmenn fóstureyðingastöðva.”
Það er rétt, en er mjög fátítt. Fylgismenn fóstureyðinga hafa líka myrt lífsverndarsinna. Það er líka fátítt. Það sýnir bara að fólk getur sýnt af sér mikla grimmd í garð annara, en ekki að málstaðurinn, að vera á móti fóstureyðingum, sé rangur. Lífsverndarhreyfingin er ein friðsamasta grasrótarhreyfing sögunar og verðskuldar ekki stimpil vegna illra gjörða örfárra manna.

12. “Andstæðingar fóstureyðinga ala á sektarkennd í konum sem hafa farið í fóstureyðingu og láta þeim líða illa.”
Fyrst og fremst er tilgangur lífsverndasinna að telja öðrum konum hughvarf, bjarga barni þeirra frá dauða og þeim sjálfum þar með frá að þurfa að þjást í mörg ár á eftir af sektarkennd. Vissulega mun sektarkennd einhverra brjótast upp á yfirborðið en við því getum við ekkert gert. Aðeins með því að vekja hneykslun fólks á fóstureyðingum getum við bundið enda á þær.

13 "Andstæðingar fóstureyðinga eru að meirihluta karlmenn og eiga því auðveldara með að vera á móti fóstureyðingum."
Málstaðurinn að vera á móti fóstureyðingum er jafn réttur hvort sem það er karlmaður eða kona sem heldur honum fram. Reyndin er sú að fleiri konur (22%) en karlar (17%) eru fylgjandi því að fóstureyðingar verði bannaðar, sbr könnun Gallups frá árinu 2001.

14. "Andstæðingar fóstureyðinga hugsa eingöngu um þetta mál en láta sig ekki varða um önnur vandamál heimsins"
Við leggjum áherslu á þetta mál og aðrir leggja áherslu á önnur mál. Það er ekki hægt að taka alla málaflokka með og berjast gegn stríðsátökum, vímuefnavanda, hungursneyð og svo framvegis, ásamt því að berjast fyrir vernd ófæddra barna. Það þýðir ekki að okkur sé endilega sama um allt annað, aðeins að við leggjum áherslu á þennan málsað.

 

Skiljið eftir viðbrögð

Gerið svo vel að smella á “Post a Comment” hér neðst á síðunni.

Hægt er að skrifa feitletraðað eða hallandi letur, og setja inn tengingar á aðrar síður.
Feitletrað á milli: <b> og </b>
Hallandi letur á milli: <i> og </i>
Tengingar: <a href="slóð">skýring</a>
Önnur html merki virka ekki. Notið enter til að gera greinaskil.
Ekki er hægt að gera greinaskil strax á eftir > heldur verður að setja punkt fyrst.

0 Viðbrögð:

Skrifa ummæliAðalsíða