fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Vantrúarmenn spurðir

Ég spurði vantrúarmenn (sjá hér ) tveggja spurninga vegna hneykslunar þeirra á að í Holtaskóla eru börn beðin um að fara með stutta bæn saman á morgnanna. Í fréttinni var viðtal við skólastjórann og sagði hún að hún hefði engin mótmæli fengið frá foreldrum. Þetta finnst mér vera höfuð atriði. Ef foreldrar eru ekki á móti þessu þá hvers vegna er þá hávær minnihlutahópur að æsa sig yfir þessu? Ég áætla að trúleysingjar, sem séu á móti kristinni trú og vilja ekki að bænir séu beðnar í skólum, séu um það bil 10 til 20 prósent, og þá er ég að láta þá njóta vafans. Hvaða rétt hafa þeir til að móðgast þótt börn biðji bænar í skólum þar sem foreldrar hafa ekkert við það athuga, eins og kom fram í fréttinni?
Í öðru lagi spurði ég þá hvernig börn geta hugsanlega skaðast af þessu. Ef þeir vilja hafa vit fyrir og grípa fram fyrir hendurnar á foreldrum þá hljóta þeir að geta fært rök fyrir að börnin skaðist af því að biðja bænar saman. Auðvitað vita þeir jafnvel og svo er ekki.

Eftirfarandi svör fékk ég:

Snær:
1. á hvern hátt skaðast börn af þessu?
Börn sem geta enga vörn við veitt eru mötuð á óraunsæum hugmyndum um umheiminn.
2. hvers vegna hafið þið áhyggjur af þessu ef foreldrar barnanna hafa það ekki?
a. Ekki er með öllu víst að foreldrarnir viti af þessu
b. Jafnvel ef foreldrarnir viti af þessu, hafa þeir sem eru ósammála litla vörn við veitt ef þetta er áframhaldandi.
c. Það á ekki að koma í hlut leikskóla að stunda trúboð, jafnvel þó ekki sé kenndur nema átrúnaður á einhvern óskilgreindan persónulegan gvuð.

Birgir:
1. á hvern hátt skaðast börn af þessu?
Það er plantað í þau gerviþörf sem ekkert gagn gerir og er fremur til óþurftar. Sjálfur ertu skýrt dæmi um fórnarlamb slíkra hryðjuverka.


Til Snæs:
1.Ég veit vel að þú telur þetta óraunsæjar hugmyndir. Hvað koma þínar skoðanir á kristinni trú þessu við? Ef þú vilt grípa fram fyrir hendurnar á foreldrum þá hlýtur þú að geta sýnt fram á skaðsemi þess að þau sé biðja bænir (eða kenndar hugmyndir um alheiminn sem þú ert persónulega ósammála)
2.
a. það verður að minnsta kosti að teljast mjög líklegt.
b. Þau geta að minnsta kosti mótmælt, sem hefur ekki gerst.
c. hver á ráða því? Þú eða foreldrar viðkomandi barna?

Til Birgis:
1.Ég veit vel að þú telur þetta gerviþörf. Hvað koma þínar skoðanir á kristinni trú þessu við? Ef þú vilt grípa fram fyrir hendurnar á foreldrum þá hlýtur þú að geta sýnt fram á skaðsemi þess að þau sé biðja bænir (eða kenndar hugmyndir um alheiminn sem þú ert persónulega ósammála)

 

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Kristnifræðikennsla í grunnskólum

Á Vantrú.net (hér) er rætt um að afnema kristnifræðikennslu í skólum. Nú hef ég sagt hér fyrir neðan að ég hafi skilning á því þegar trúleysingjar vilja ekki að börnum þeirra sé boðuð trú í grunnskólum og nefna að ekki megi biðja bænir með börnunum og svo framvegis. En það sem þeir raunverulega vilja er að engum börnum sé boðuð trú! Ekki bara þeirra börnum. Þetta er liður í baráttu þeirra fyrir að breiða út sitt ófagnaðarerindi. Ef sanngirnis væri gætt þá mættu þeir fara framm á að þeirra börn væru undanþegin bænum með öðrum en það verður að spyrna við fæti þegar þeir berjast fyrir að henda þessu öllu út úr skólunum. Það mætti gera meira af því að biðja með börnum í skólum. Varla geta þau skaðast af því.

Hins vegar málið sem ég er á móti er kynfræðsla í skólum og siðferðisinnrætingin sem hún felur í sér og er í andstöðu við trú fjölskyldu minnar. Mín börn og önnur börn kaþólskra eiga að vera undanþegin þessu. Af þessu skaðast börnin, en ekki af bænum! Sjá hér grein um kynfræðslukennslu og af hverju ég er á móti henni.

Réttlátt væri allir foreldrar væru spurðir hvort kenna mætti börnum þeirra kynfræðslu og hvort biðja mætti með þeim. Þessu hvorutveggja eiga foreldrar að fá að ráða sjálfir, en ekki fræðsluyfirvöld og heldur ekki trúleysingja þrýsithópur

 

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Komment möguleiki uppfærður.

Nú er búið að laga einn galla sem var í "komment" kaflanum í heimasíðunni. Það var þannig að þegar maður skrifaði komment, þá sá maður ekki þau komment sem voru komin fyrir og þurfti því að hafa heimasíðuna opna í tveimur gluggum, til að geta séð hverju maður var að svara. Nú er búið að laga þetta og maður sér öll gömul komment þegar maður skrifar nýtt og annað: menn geta valið að vera innskráðir notendur blogger.com, nafnlausir og það sem er nýtt að skrifa inn nafn sitt og heimasíðu, ef menn vilja og þá geta lesendur kommenta smellt á nafnið og skoðað heimasíðu viðkomandi.

 

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Stofnfrumurannsóknir

Við glasafrjóvganir verða alltaf til nokkrir fósturvísar sem er eytt. Það er mannslíf sem er eytt. Þess vegna eru tæknifrjóvganir siðlausar, þótt margir sjái þær sem jákvæðar aðgerðir. Það eru þessir fósturvísar sem vísindamenn vilja gera sínar stofnfrumu-tilraunir á.
Nú var í fréttum nýlega að bandarískt fyrirtæki hyggst stunda stofnfrumurannsóknir sínar hér á landi vegna þess að hér er ekki sama umhverfið og í bandaríkjunum varðandi andstöðu við slíkt, eða trúarlega þrýstihópa yfirleitt. Þetta er visst umhugsunarefni. Þegar þeir fá ekki vinnufrið í sínu landi fyrir siðlausar tilraunir sínar á fósturvísum, koma þeir hingað. Reyndar segja þeir að þeir stundi aðeins ransóknir á fullorðins stofnfrumum, en hvers vegna þá að flýja þrýstihópana? Það er ekki eins og við séum á móti rannsóknum í sjálfu sér, aðeins þegar fósturvísum er fórnað í þessum tilgangi. Þá er það siðlaust. Þannig sýnist mér vera ljóst að það standi til að færa sig yfir í þess konar tilraunir. Þótt þessar rannsóknir geti leitt til góðs af einhverju leyti eru þær samt rangar og siðlausar. Tilgangurinn helgar ekki meðalið! Manneskja má aldrei vera hráefni eða tæki til annarra gæða.
Sjá hér grein um þetta bandaríska fyrirtæki í Iceland Review.

 

mánudagur, febrúar 14, 2005

Fóstureyðing


  1. Það er rangt að drepa mannveru.
  2. Fóstur er mannvera.
  3. Það er rangt að drepa fóstur.


Þeir sem eru fylgjandi því að fóstureyðingar séu jafn frálsar og þær eru, mótmæla gjarnan síðari forsendunni. Að fóstur sé ekki mannvera. Oft ræða þeir um “frumuklasa” til að leggja áherslu á þá skoðun sína og fyrtast þegar notuð eru orðin “ófætt barn”. En þótt sýnt sé fram á að fóstur sé mannvera frá getnaði virðist það stundum ekki hafa nein áhrif á þá sem eru búnir að ákveða að fylgja fóstureyðingum. Stundum finnst manni eins og sumir séu jafnvel ósammála fyrstu forsendunni líka, að það sé rangt að drepa mannveru. Þá er nánast útilokað að sannfæra viðkomandi.


Hver er þá skilgreining á því hvenær fóstur verður að mannveru? Sumir segja þegar fóstur nær einhverju vissu þroskastigi sem þeir telja skilji að það sem þeir kalla “frumuklasa” annars vegar og fóstur hinsvegar (ca 1 mánuður), aðrir þegar heilastarfsemi verður mælanleg (ca 1½ mánuður),
aðrir þegar barnið er orðið nógu þroskað til að geta lifað utan líkama móður sinnar (ca 6 mánuðir). Enn aðrir segja þegar barn fæðist. Allt er þetta úr lausu lofti gripið og bollaleggingar hvers og eins. Ekki er hægt að rökstyðja af hverju þeirra mat, en ekki annara eigi að skera úr um þetta. Hin raunverulega spurning er: Hver hefur siðferðilegan rétt til að dæma um slíkt?


Hefur móðirin þann siðferðilega rétt? Það er mjög líklegt að sá dómur myndi endurspegla hennar eigin aðstæður og hvaða áhrif tilvist barns muni hafa á hennar líf, en að það væri ekki hlutlaust mat á hvort barnið sé mannvera. Það er ekki hægt að láta slíkt ráða því hvort einhver einstaklingur dæmist vera mannvera eða ekki.


Hefur meirihluti samfélags rétt fyrir sér? Sum samfélög hafa lögbundið mikið óréttlæti, eins og til dæmis þar sem konur eru grýttar til bana fyrir ýmis skírlífisbrot. Það er líka hægt að nefna önnur dæmi, svo sem um lögbundin mismunun kynþátta sem er samþykktur af viðkomandi samfélagi, og margt fleira. Það er ekki hægt að fullyrða að eitthvað sé siðferðilega réttlátt, þótt meirihluti samfélags telji svo vera, eða láti það að minnsta kosti óáreitt.


Eru það þá vísindamenn sem geta skorið úr um það? Þeir geta sagt okkur allt um hvenær okfruma festist við slímhúð legsins, hvenær útlimir og höfuð verður greinanlegt, hvenær hjarta byrjar að slá, hvenær heilastarfsemi verður mælanleg, o.s.f. Þeir geta þó ekki tekið sér það siðferðislega vald að dæma um það hvenær fóstrið verður að mannveru.


Niðurstaðan er að enginn hefur siðferðilegan rétt til að ákveða slíkt. Enginn getur tekið það sér vald í hendur. Þá er aðeins rökrétt að þar sem líffræðilegt upphaf fósturs er getnaður, að upphaf “mannverunar” sé þar líka. Það er ekki hægt að staðsetja neinn annan tímapunkt þegar mannvera verður til.



  1. Líffræðilegt upphaf fósturs er getnaður
  2. Enginn hefur siðferðilegan rétt til að staðsetja upphaf mannveru annars staðar en við líffræðilegt upphaf.
  3. Upphaf mannveru er getnaður
  4. Fóstur er alltaf mannvera.


Ef við erum komin á þá niðurstöðu að fóstur sé mannvera, þá fylgir næsta niðurstaða óhjákvæmilega á eftir: Það er rangt að drepa fóstur. (Það er að segja ef viðkomandi er sammála að það sé rangt að drepa mannveru) Fyrir þá sem enn eru í vafa um að þetta sé rétt ályktun býð ég að hugsa þetta á eftirfarandi hátt: Þar sem líffræðilegt upphaf ófædds barns er getnaður, þá er upphaf mannveru líklega það sama. Ófætt barn er líklega alltaf mannvera og þá er aðeins siðferðilega réttlátt að láta vafann liggja þeim megin að ekki sé bundinn endi á líf sem líklega er líf mannveru.


Ófædda barnið hefur sama rétt til að lifa og allar aðrar mannverur og er rangt að drepa það. Aðstæður móður þess skiptir ekki máli. Meintir fæðingargallar skipta ekki máli. Engar ástæður skipta máli. Það er engin leið að réttlæta eyðingu á barni út frá kringumstæðum móðurinnar, alveg sama hversu mikla samúð maður hefur með henni. Alveg sama hversu það kæmi henni illa ef það fengi að lifa.


Til dæmis þótt barn sé getið í nauðgun, þótt barnið verði vanskapað eða fatlað, þótt móðirin væri óhæf til að annast það. Ef menn skoða málin út frá sjónarmiði ófædda barnsins, skiptir allt þetta engu máli. Ef réttur barnsins til að vera mannvera, með rétt til að lifa, er virtur skiptir allt hitt engu máli. Allt hitt er hvort sem hægt að leysa á einhvern hátt annan en með fóstureyðingu.


Þegar móðirin er að uppgötva að hún sé komin fram yfir á blæðingum og tekur þungunarprófið, þá er litla hjartað farið að slá og heilastarfsemi komin í gang. Hjartað byrjar að slá um það bil þremur vikum eftir getnað og heilastarfsemi mælist eftir sex vikur. Nýr einstaklingur, sem er einstakur í heiminum, hefur byrjað líf sitt. Hann fæðist ekki aftur. Ef hann fær að halda lífi verður hann einn daginn fullorðinn maður eða kona.


Flestar fóstureyðingar á Íslandi eiga sér stað á seinni hluta 2. mánaðar eða á þriðja mánuði. Þær eru leyfðar fyrstu fjóra mánuði meðgöngu og jafnvel enn seinna ef miklar líkur séu á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.


Nokkrar tölulegar staðreyndir:
Á árunum 1971 til 1975 voru að meðaltali 203 fóstrum eytt á hverju ári eða 4% af öllum fóstrum.
Á árunum 1981 til 1985 var hlutfallið komið upp í 14% eða 670 fóstureyðingar ári.
Á árinu 1999 voru 945 fóstrum eytt hér á Íslandi, eða 19% . Það eru 18 fóstur á hverri viku.

Nokkrar vísindalegar staðreyndir:

10 dagar: Fósturvísir festist við slímhúð legs
22 dagar: Hjartsláttur finnst.
40 dagar: Heilastarfsemi verður mælanleg.
2 mánaða: Öll líkamsstarfssemi er virk. Börn á þessu aldursstigi hafa sést sjúga þumalfingurinn í sónartæki.
3 mánaða: Barnið getur heyrt.
4-5 mánaða: Barnið getur sparkað nógu fast til að móðir þess finni það.

Ef einhver les skrif mín sem er að hugsa um að fara í fóstureyðingu þá segi ég þetta við hana:


Vísaðu þessari hugmynd frá þér strax og hugsaðu ekki einu sinni um þetta sem möguleika til lausnar vanda þínum. Þú ert ófrísk og ekkert við því að gera. Þú getur ekki annað gert en að ganga með þetta barn og eiga það. Þá getur þú gefið það til ættleiðingar, eða reynt að ala það upp sjálf. Hlutirnir eru oft ekki eins erfiðir og maður ímyndar sér. En að gera þetta ætti ekki að koma til greina. Þú munt sjá eftir því alla ævi. En ef þú eignast barnið muntu stundum horfa á það og gleðjast yfir að hafa ekki gert þetta.

 

laugardagur, febrúar 12, 2005

Kynfræðsla í skólum

Kynfræðsla í skólum er fyrir mér svipað og kristnitrúboð í skólum væri fyrir trúleysingjum. Það sem þeir setja helst fyrir sig er sá skilningur þeirra að stundað sé trúboð í skólum og vilja ekki að börn sín verði fyrir slíku. Ég get svo sem skilið þá afstöðu því ég skynja þetta á mínu skinni þegar börnum mínum er kennt um getnaðarvarnir, og það er beinlínis hvatt til notkun þeirra, um fóstureyðingar og talað er um það í jákvæðu ljósi. Sérstaklega brá mér þegar ég las í kennslubók dóttur minnar fyrir nokkrum árum, (líklega 6. bekkur) að sjálfsfróun væri eðlileg og ekkert til að skammast sín fyrir. Okkar trú kennir að það sé alvarleg synd. Einnig fylgir tiltal um samkynhneygð, og er það litið jákvæðum augum, alla vega ekki neikvæðum. Það væri alveg bannað. Okkar trú kennir að kynlíf með öðrum af sama kyni sé alvarleg synd.
Það er alveg klárt að allt þetta er í beinni andstöðu við kenningar trúar minnar og barna minna, og þarna er verið að brjóta á trúfrelsi okkar með þessu, samanber þessi ályktun lagaprófessors eins:



Það telst einnig brot gegn trúfrelsi manna ef þeir njóta lakari réttar en aðrir í þjóðfélaginu vegna trúar sinnar. Loks má geta þess að í trúfrelsinu felst réttur foreldra til þess að ákveða menntun og fræðsla barna þeirra sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

Björg Thorarensen, Prófessor við lagadeild HÍ:
http://www.hi.is/~bjorgtho/docs/18-mannrettindi.doc


Þetta er í raun alvarlegasta atlagan frá hinu opinbera að trú okkar, þegar börnum okkar er innrætt eitthvað sem er í algjörri andstöðu við trúnna í grunnskólum.
Ég vil hvetja alla kaþólska foreldra til að vera vakandi fyrir þessu og að krefjast þess við skólastjóra í skólum barna sinna, að þau séu undanþegin þessari kynfræðslu. Þetta er stundum sett inn í áfangann Lifsleikni. Stundum kemur hjúkrunarfræðingur í kennslustofuna með sýnishorn af mismunandi getnaðarvörnum og hvetur til notkun þeirra. Ég hef talað við Gerði Óskarsdóttur, fræðslustjóra Reykjavíkur, um þetta mál fyrir nokkrum árum og fékk þau svör að skólastjórinn ætti að verða við þessum óskum mínum.